Minningabrot úr bókinni Allt upp á borðið

vill brekku allt upp a bordid kapa webHaustið 2004 fluttum við Margrét til Seyðisfjarðar. Þá voru liðin 72 ár síðan við fórum þangað forðum, þá til vetrardvalar. Nú var dvalartími óráðinn, raunar óræður.

Margrét þarfnaðist umönnunar sem naumast eða ekki var unnt að veita í heimahúsum. Minnisskerðing er eitt þeirra orða sem notuð eru um hennar sjúkleika. Sjóndepra hafði þá einnig mjög háð konu minni um skeið. – Og við vorum orðin níræð.

Heilsu minni var þannig farið að ég tók að vísu lyf að læknisráði. En kenndi mér vart meins nema bakið bognaði og hnén létu sig svo ég varð lélegur til gangs. Sumarbjástur mitt á Brekku var orðið nafnið tómt.

Í fáum orðum sagt: Margrét fékk inni á viðeigandi deild á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar – á Norðurhlíð. Og ég á heimili Páls sonar okkar og Kristínar tengdadóttur á Baugsvegi 3, örskammt frá sjúkrahúsinu. – Búslóðarflutningar voru engir og dvalartími óræður sem fyrr segir.

Heimsóknir aðstandenda á deild Margrétar voru frjálslegar. Ég gerði mér að reglu að líta inn þrisvar á dag, stutta stund fyrir hádegi, um klukkutíma fyrir sex en þá var kvöldverður á deildinni. Og kom svo í kvöldkaffið um áttaleytið og stansaði þá gjarnan fram að háttatíma. – Þetta frjálsræði var mér ómetanlegt.

Margrét hafði fótavist og var nokkuð málhress. Hún gat talað í síma við sitt fólk og tók heimsóknum fagnandi. Hún mundi gamalt og kunni kveðskap. En braut lítið uppá samtali – og bað ógjarnan um aðstoð. Skildi aldrei hversvegna hún gat ekki verið heima og haldið áfram að annast heimili sitt.

Á Seyðisfirði hefur verið rekið sjúkrahús á aðra öld, síðasta aldarfjórðunginn í nýju húsi. Það er þrjár hæðir; eldhús, æfingasalur og fleira í kjallara, á jarðhæð heilsugæslan, móttaka, læknastofur, fundaherbergi o.fl. Á þriðju og efstu hæðinni eru vistarverur sjúkra, almenn deild og deild fyrir minnisskerta. Þar eru, á suðurstafni, rúmgóðar svalir með aðgengi fyrir báðar deildir.

Þegar stigið er út úr lyftunni á þriðju hæð er komið inn á opið svæði þótt stuttur veggur gegnt lyftudyrum afmarki einskonar forstofu.

Til vinstri frá lyftudyrum er bein leið að gangi almennrar sjúkradeildar, afmörkuð af skilvegg, litlu hærri en venjulegt matborð.

Fyrir innenda rýmisins er vaktherbergi hjúkrunarfólks, glerveggur með afgreiðsluopi. Þar geta gestir náð tali af vakthafendum áður en þeir fara inn á sjúkradeildir.

Hið opna rými, sem ég hef kallað svo, er í senn dag- og matstofa fyrir almennu deildina. Jafnframt er það sameiginlegur samkomusalur fyrir fólk af báðum deildum sem heilsa leyfir að njóta þess sem í boði er hverju sinni. Það var býsna margt en ég nefni aðeins fá dæmi sem ég var sjálfur vitni að:

Góður lesari las valda kafla á tilgreindum tíma í nokkrar vikur í senn.

Sýndar voru myndir á stórum skjá, t.d. af kunnugu fólki, athöfnum og öðru sem ætla mátti að áhorfendur hefðu gaman af að sjá.

Starfsfólki varð ekki skotaskuld úr því að raða húsgögnum svo sem best hentaði hverju sinni.

Á jólum og öðrum stórhátíðum kom sóknarpresturinn með fríðu föruneyti, kirkjukór og organista. Og það var hátíð í bæ.

Svo kom þorrinn og slegið var upp langborðum, veisla, söngur og dans og harmonikkan dundi. – Harmonikkuspilarar komu líka þess utan og spiluðu, aufúsugestir á báðum deildum.

Margir fleiri komu á sjúkrahúsið til að skemmta og gleðja þótt hér verði ekki taldir. Skólar og félög munu hafa komið þar við sögu. Og vitanlega verið á ferð síðdegis – meðan ég hélt mig heima – á Baugsvegi.

Nú lítum við inn á Norðurhlíð. Sú deild er lokuð. Minnisbrestur veldur því að fólk veit ógerla hvert það er að fara. Þau misseri sem ég var heimagangur á þessari deild virtist mér að næstum ótrúlega fáir gerðu sér grein fyrir lokuninni eða væri verulegur ami að henni. Aftur á móti áttu margir bágt með að skilja hvers vegna þeir þyrftu að vera þarna í stað þess að vera heima hjá sér. Á hinn bóginn, þeir sem áttu þess kost og gátu notið þess að fara út að ganga með fylgdarmanni, tóku því fagnandi.

Það gat verið dálítið vandasamt að velja afþreyingarefni sem hentaði mörgum. Einstakir sjónvarpsþættir og myndbönd með kunnuglegu efni voru almennt vinsæl. Lestur úr góðri bók féll og í góðan jarðveg ef vel tókst til. Létt og lífleg lög stóðu líka fyrir sínu, leikin og sungin.

Tvennt sem tengdist afþreyingu, annað jafnframt og ekki síður heilsurækt, þótti mér frábært, hvort á sinn hátt.

Síðasta klukkustundin fyrir hádegisverð gat orðið dálítið tómleg ef ekkert var að gert. Oft var þá lesið eitthvað „létt og laggott". Stundum fyrir alla sem notið gátu frammi á almenningi, stundum inni á Norðurhlíð fyrir þá sem komnir voru fram í dagstofu, og gjarnan spjallað við fólkið um það sem lesið var.

Ég var þarna á stjái einmitt um þetta leyti, settist þá hjá konu minni þegar hún var viðstödd og hlýddi á lesturinn.

Svo er það eitt sinn að ung kona í bænum tók að sér um skeið að dvelja fyrir fólkinu fyrir hádegismatinn, hve lengi vissi ég ekki. Þessi kona hafði styrka rödd og skýran framburð og sérlega gott og glaðlegt viðmót. Fyrst las hún kannski stutta sögu. Svo spjallaði hún við tilheyrendur sína um alla heima og geima. Og var, að mér fannst, einkar lagin að ná eftirtekt og laða fram tilsvör fremur fátalaðra viðmælenda.

Það bar til stundum þegar ég kom í árdegisheimsókn að aldraður maður, sem enn hélt herbergi sínu í gamla spítalanum, varð mér samferða upp í lyftunni og urðum við brátt góðir kunningjar. Svo er það eitt sinn þegar lyftan opnast á efri hæðinni að fyrir dyrum stendur þéttur hópur svo okkur félögum varð útgangur torsóttur! Við komumst samt okkar leið og hitt fólkið sína – í tveimur ferðum.

Oftar mætti ég þessum hópi á leið í eða úr lyftunni. Þetta voru íbúar Norðurhlíðar og sögðust vera í leikfimi, flestir gangandi en einnig í hjólastólum sem félagarnir óku á undan sér. Tveir sjúkraþjálfarar, ungar konur, hávaxnar og fasprúðar, leiddu hópinn. Gekk önnur fyrir og hin gætti þess að enginn heltist úr lestinni. – Mér sýndist fremur létt yfir þessum leikfimihópi og því tengi ég þetta í huga mér við hvort tveggja, heilsurækt og afþreyingu.

Sjúkrahús sem nú nefnast Heilbrigðisstofnanir eru, eðli málsins samkvæmt, hlutfallslega fjölmennir vinnustaðir. Enda er þar staðin vaktin nótt sem nýtan dag. Það auðkennir og þessar stofnanir að ekki er ætlast til vinnu af íbúum. Þvert á móti þurfa þeir á stuðningi að halda, aðstoð sem gjarnan er einstaklingsbundin þótt runnin sé af sömu rót hjá mörgum.

Ég er allt annað en fljótur að festa mér í minni nöfn og yfirbragð fólks sem skyndilega kemur í sjónmál. Jafnvel þó það beri fyrir augu dag eftir dag. Mér þótti þetta afleitt þegar ég var orðinn einskonar heimagangur á sjúkrahúsinu. Og tók mig til og skrifaði á blað nöfn starfsfólksins smám saman. Blaðinu hef ég haldið til haga og geymir það 42 nöfn hjúkrunarliðs og annars starfsfólks. – Ég lærði blaðið og það dugði mér dável innan húss. Síður út í frá!

Ég læt það alveg vera að gefa einkunnir einum eða öðrum í þeim prúða hópi heilbrigðisstétta sem ég kynntist á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar 2004 til 2008. En ég get ekki stillt mig um að rifja upp – í því sambandi – hverju pabbi svaraði mér forðum. Hann var þá orðinn vistmaður á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund og ég segi við hann, svona í léttum tón: „Eru þær sæmilegar við þig, stúlkurnar hérna?" En hann styggðist við og svaraði með áherslu: „Sæmilegar – þær eru allar ágætar!"

Það er mála sannast að ég vissi einhver deili á flestum þeim sem gistu Sjúkrahús Seyðisfjarðar um þessar mundir. Það var kannski síst að undra. Að vísu var aldarfjórðungur síðan ég hætti þingmennsku. En þá hafði ég líka verið á randinu út af pólitík í þrjátíu ár. Fyrst um Suður-Múlasýslu, en síðustu árin um Austurland eins og það lagði sig, frá Brekknaheiði og suðurúr.

Ekki gat hjá því farið að ég kynntist mörgu fólki á þessum árum. Alls staðar átti ég góðu að mæta. (Og til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning! Pólitíska litrófið kom ekki til greina í þessu sambandi, þótt það skipti vissulega máli á kjördögum!)

Ef satt skal segja þá lá maður víða uppá fólki, þáði gistingu og annan beina og margskonar fyrirgreiðslu. – Ég finn ég er kominn á skjön við frásagnarefnið en samt fylgja sögur:

Fundi lauk í félagsheimilinu á tólfta tímanum og mér hafði láðst að hugsa fyrir gistingu. Góður og gildur bóndi í sveitinni hafði ekki komið á fundinn og ég ók þangað og baðst gistingar. Vel var mér tekið. Og þegar við gengum til náða um eittleytið var ég spurður um áætlun að morgni. Kvaðst ég þurfa að halda á upp úr níu. Þegar ég svo reis úr rekkju á níunda tímanum var ekki um neitt að villast. Húsfreyja var farin að sjóða hangikjöt! Áætlun mín frá kvöldinu áður var lögð til hliðar – umræðulaust. – Mér þótti ekki verra að hitta dóttur hjóna starfandi á Norðurhlíð eftir þrjátíu ár.

Vitanlega þurfti ekki pólitík til að kynnast vinsemd og höfðingsskap fólks á þessum slóðum. Tvívegis bar svo til á skólaferðalagi með ungum nemendum mínum að ókunnugar konur, sem urðu varar við ferðir okkar, drifu mig inn með allan hópinn. Og eins og hendi væri veifað vorum við sest að súkkulaðidrykkju með tertum, rjóma og öðru sem þar til heyrði. Það yljaði að hitta nú aðra þessa konu 40 árum seinna og fá tækifæri til að þakka henni fyrir síðast.

Í upplýsingum fyrir aðstandendur þeirra sem þörfnuðust vistar á Norðurhlíð var þess m.a. getið að æskilegt væri að þeir hefðu með sér, auk annarra nauðsynja, nokkra persónulega muni eins og t.d. myndir – og létt húsgögn þegar það hentaði. Mér þótti þetta athyglisvert. Og hlýlegt fyrir þá sem notið gátu heilsunnar vegna.

Á Norðurhlíð byggðu flestir einbýlisstofur en ekki allir. T.d. átti Margrét herbergisfélaga. Það féll henni vel. Var vön tvíbýli og leiddist að sofa ein í stofu. Síðasti herbergisfélagi hennar var úr Efra eins og hún sjálf. Kringumstæður buðu ekki uppá veruleg samtöl. En ég held að hlýir straumar hafi farið á milli þeirra.

Margrét mín kvaddi 21. apríl 2008. Skömmu seinna færði ég mig frá Páli og Kristínu á Baugsveginum upp að Egilsstöðum og fáum vikum seinna til Sigfúsar og Jóhönnu á Brekku.

Dvölin á Seyðisfirði, í þetta sinn þrjú og hálft ár, varð mér eftirminnileg. Daglegar komur á sjúkrastofnun misserum saman láta engan ósnortinn.

Þessi upprifjun átti aldrei að verða sjúkrasaga. Og hún verður það ekki þótt ég bregði upp örfáum skyndimyndum úr Norðurhlíð. Sem að vísu eru ekki til á filmu. Þær eru allar „teknar" árdegis og sýna bæði hreyfingu og kyrrð, frammi á gangi og inni í setustofu.

Á gamals aldri tók ég mig til og lauk við að læra Tímann og vatnið. Þessi kvæðasyrpa Steins Steinars er myndauðug með afbrigðum og ein myndin er svona:

Sólin,
sólin var hjá mér,
eins og grannvaxin kona,
á gulum skóm.

Það var rólegt á Norðurhlíð. Ég tók mér sæti gegnt opnum ganginum og beið átekta. Og sjá! – Dyr opnast og myndlíking Steins úr 2. kvæði Tímans og vatnsins kom í ljós. Lifandi mynd, gædd holdi og blóði, birtist mér frammi á ganginum!

Sú sem þarna kom á vettvang var ein úr hjálparsveitinni, líklega sú yngsta. Sjálf var hún svipfalleg og björt yfirlitum í hvíta sloppnum sínum, einkar grannvaxin – og á gulum skóm. – þetta var hrein upplifun því sjón er sögu ríkari!

Kyrrt á Norðurhlíð, leikfimi niðri í sal, vaktin að störfum á herbergjunum.

Tvær konur í stofu. Þær sitja þar saman í mjúkum sófa með eitt teppi breitt á hné beggja. Þær virðast hafa stuðning hvor af annarri og sitja þó teinréttar í sæti, halla hnakka að mjúku baki sófans – og sofa.

Ég átti vantalað við aðra, settist og beið þar til þær rumskuðu eftir tæpan stundarfjórðung. Þá tók ég konu mína tali.

Þessar konur voru ekkert kunnugar, hvorug var skrafhreifin þegar hér var komið sögu og þó önnur miklu síður og ég held að tilviljun ein hafi ráðið að þær voru leiddar til sætis saman í þetta sinn. – Myndina nefni ég Hvíld.

Önnur mynd á sama tíma sólarhrings, á sama stað og tvær konur sofandi. En önnur „uppstilling".

Heimakona situr í hægindastóli, hallar hnakka að baki hans og sefur.Við hlið hennar á lágri armbríkinni situr ein þeirra yngri í hjálparliðinu. Hún hefur hallað sér að skjólstæðingi sínum, lagt annan handlegg yfir herðar henni, hallað mjúklega vanga að hvirfli – og sofnað.

Ég dró mig í hlé og settist handan við hornið. Eftir dálitla stund gægðist ég innfyrir. Þær sváfu báðar sem fyrr. Brátt rumskuðu þær svo og myndin leystist upp. Nafn hennar er Helgimynd.

Heimsókn var lokið í það skiptið. Ég gekk fram ganginn. Fótatak að baki mér. Ung stúlka úr hjálparsveitinni kemur og nær mér óðar. Ég greikka sporið til að njóta samfylgdar. Það ber árangur því hún hægir ferðina. En henni líkaði ekki limaburðurinn! – „Gakktu uppréttur", sagði hún hvetjandi. Ég var allur af vilja gerður. En það var ekki hægurinn hjá að gera allt í senn, halda hraða, halda takti og rétta úr kryppunni! En hún var kröfuhörð og gaf engan afslátt:

„Gakktu eins og frjálsborinn Íslendingur!"

– Mér féll mætavel við þessa ungu stúlku sem var að minni hyggju skörungur að gerð og þó ljúflingur.

Svo breyttust hagir sem fyrr getur og ég kvaddi á Seyðisfirði, frændur og fjölmarga vini og kunningja. Þó ekki svo að skilja að ég sæi þá aldrei framar! En ég ók upp yfir heiði.

Á Fjarðarheiði hafði hugvitið og mannshöndin heldur betur látið til sín taka, einmitt meðan ég dvaldi á Seyðisfirði að þessu sinni.

Nú var, eftir tæplega hundrað ár, búið að virkja Fjarðará öðru sinni Og nú frá upptökum að ósi, liggur mér við að segja.

Norðanvert hefur Vegagerðin gerbreytt efstu brekkunni, sett niður stálhólk í stað einbreiðrar brúar og gert vegfyllingu sem jafnar halla vegarins. Og á miðri heiði er komin mjög myndarleg vegfylling.

Vetrarríkið á Fjarðarheiði verður þó aðeins sigrað með veggöngum.

Þótt leið mín lægi nú uppyfir heiði, burt frá Seyðisfirði, gat ég ekki annað en hugsað til baka og minnst þess sem ég hafði heyrt og séð, upplifað, undanfarin sjö misseri.

Góð var vistin á Baugsvegi hjá Stínu og Palla. Og þar var gott að sitja og krota sér til gamans – sem oftar en hitt leiddi af sér bókarkver að hausti.

Þaðan sem ég sat og krotaði blasti höfnin og hafnarbakkinn við, ferjulægið. Það var alltaf dálítið eins og hressandi sjón þegar Norræna kom og lagðist í sinn krók með hátíðlegu yfirbragði. Siglingar ferjunnar Norrænu eru mikilvæg tenging Íslands við nálæg lönd, hagkvæm og huglæg.

En „aftur horfir ellin grá" kvað Bessastaðabóndi forðum.

Komur mínar til Seyðisfjarðar voru til að byrja með einkum kynnisferðir til frændfólksins. Svo breyttist þetta með árunum. Eftirminnilegir menn komu inn í myndina þess utan. Með þeim fyrstu var Sigurður Sigurðsson, kennari og amtsbókavörður, sem lánaði mér bækur og ræddi við mig. Löngu seinna kynntist ég Þorbirni á snjóbílnum sem meira að segja fór með mig til Mjóafjarðar yfir Gagnheiði í þúsund metra hæð. Merkur maður á marga lund. Og mætti lengur telja. En Seyðfirðingar reistu Þorbirni Arnoddssyni veglegan minnisvarða á Neðri-Staf. Þar heilsar hann komumönnum og kveður þá sem fara.

Síðasta og lengsta dvölin varð drýgst til kynna. – Nokkur mannamót hjálpuðu til. Gaman var að koma í Öldutún til þeirra sem sögðust vera aldraðir! Stöku sinnum fór ég líka á önnur mannamót.

Kirkjugöngur, af ýmsum tilefnum, hjá séra Cesil og söfnuði hans létu alltaf nokkuð eftir. Svo á ég þrjár persónulegar minningar úr kirkjunni á Seyðisfirði: Ættarmót Hánefa, hlýtt Aðventukvöld og lestur Passíusálmanna á löngu föstu. Sálmana lásu um fimmtán Seyðfirðingar, samfellt, nema rofið stöku sinnum með sálmalögum sem leikin voru á orgelið. Og tveir níræðir hlustuðu óslitið allan tímann!

Og enn, því „svipþyrping sækir þing í sinnishljóðri borg":

Átakafundur um landsmál í Bæjarstjórnarsalnum í skólanum 1933, spennandi.
Kvenfélagið Kvik 75 ára, gaman.
Nýja sjúkrahúsið vígt 1987, hátíðlegt.

Einu sinni var Seyðisfjarðarkaupstaður þrískiptur, Vestdalseyri, Alda, Búðareyri. Enda þótt það sé ekki lengur svo þá er útgerð og vinnsla sjávarfangs nokkuð út af fyrir sig, úti á Búðareyri. Þar eru smábátahöfnin, hafskipabryggjur, hraðfrystihúsið, bræðslan og olíu- og lýsisgeymar. Megin íbúðabyggðin er innar báðum megin Fjarðarár. Þar er skóli, sjúkrahús og kirkja, skrifstofur og verslanir. Þar er og ferjulægið við sérstakan hafnarbakka – og ferðamannaþjónusta, hótel og farfuglaheimili.

Það er eftirtektarvert hvað landslag hefur haft mikil áhrif á skipan byggðar í þéttbýli víða á Austfjörðum.

Ég held það sé fleira en sýnist í fljótu bragði sem sýslað er við á Seyðisfirði um þessar mundir. Og þar er unnið hörðum höndum að fjölgun atvinnutækifæra þó þar hafi löngum verið þungt fyrir fæti. Í menningarmálum hafa hljómlistarviðburðir Bláu kirkjunnar vakið athygli. Og myndlistin markaði sér Skaftfell, svo dæmi séu nefnd.

Allt þetta og miklu fleira er skammt undan ef hugur hvarflar norður yfir fjall. Og gömlu húsin! Þau voru auðvitað á sínum stað þegar ég dvaldi á Seyðisfirði forðum, þá var búið í flestum. Nú hafa sum fengið nýtt hlutverk. Og mörgum hefur verið gert til góða svo þau eru, nú sem fyrr, staðarprýði og talandi tákn um reisn þeirra sem byggðu bæinn beggja vegna aldamótanna 1900. Á það minnir og Húsasaga Seyðisfjarðar, mikil bók og merk.

Þegar ég hef komið til Seyðisfjarðar eftir dvölina þar 2004–2008 að heimsækja frændfólk sem fyrr, þá hefur mér þótt bæði ljúft og skylt að líta einnig inn á sjúkrahúsið. Þar var sem fyrr góðum að mæta, bæði í hjálparliðinu sem ég nefni svo og inni á deildum. Og svo kom ég þá í eftirmiðdagskaffið í Norðurhlíð. Þar mátti segja að ég þekkti alla. Því þótt einhverjir hefðu komið eftir að ég hætti að vera þar daglegur gestur, þá vissi ég einnig nokkur deili á þeim.

Ég smeygði mér ævinlega að borði fyrrum herbergisfélaga Margrétar minnar og urðu fagnaðarfundir. Sú kona, Droplaug Kjerúlf, ólst upp á bókaheimili, varð snemma læs – og las eins og bókakostur og aðstæður leyfðu. Nú hafði sjóndepra varnað henni lesturs um árabil. Droplaug var ljóðelsk og kunni kvæði góðskálda. Reyndi ég alltaf að hafa eitthvað fallegt af því tagi í kollinum, hæfilega langt til að þylja henni eftir að við höfðum drukkið kaffið.

Fósturforeldrar Droplaugar voru vel gefið sómafólk. Eitt sinn, þegar hún var enn á barnsaldri, kom velmegandi Vestur-Íslendingur í heimsókn. Hann braut upp á því að taka litlu stúlkuna í fóstur og kosta hana til náms. Hefur vafalaust tekið eftir því að þessi litla manneskja var sílesandi bækur fóstra síns.

En fóstra hennar sagði að hún hefði tekið að sér uppeldi þessa barns og hefði ekkert leyfi til að fela það öðrum og rifta þannig gerðum samningi.

Mér er þessi frásögn Droplaugar Kjerúlf eftirminnileg og ekki síst niðurlagið. Því hún sagði að í huganum hefði hún verið fús til fararinnar. – Þá hefði hún fengið að ganga í skóla og læra. Það var minn draumur, sagði Droplaug.

Heimsóknir á Sjúkrahús Seyðisfjarðar eftir að ég hætti að vera þar á ferli daglega hafa verið ánægjulegar. Heilsufar fólks á þeim bæ er vitanlega misjafnt. En það er víst lögmál lífsins eins og við segjum stundum.

Ekki hefur það spillt ánægju minni að sjá dagstofur beggja deilda fá hlýlegra yfirbragð með auknum og bættum búnaði. Þar eru að verki Hollvinasamtök sjúkrahússins. Og þau hafa ekki látið þar við lenda. Keypt hafa verið til sjúkrahússins ný og vönduð röntgentæki og fleira sem sjúkrahúsið skorti. Er þetta í senn eftirbreytni- og eftirtektarvert á sama tíma og ríkið sker við nögl framlög til heilbrigðismála víðsvegar um landið. En:

Sitthvað hefur sína tíð,
svo er að hlæja og gráta.

Og lýkur hér minningabrotum frá þeim misserum þegar við Margrét mín dvöldum á Seyðisfirði, inni í bæ, tvívegis – með 70 ára millibili.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.