Leiddist í Covid og ákvað að prófa kraftlyftingar

Alvar Logi Helgason frá Egilsstöðum tók síðasta haust þátt í heimsmeistaramóti unglinga í kraftlyftingum. Hann bætti þar Íslandsmetið í bekkpressu, fáeinum mánuðum eftir að hann byrjaði að stunda íþróttina.

Alvar Logi segist hafa byrjaði í kraftlyftingunum því honum hafði leiðst í Covid-faraldrinum. Hann hafði fyrir HM tekið þátt í bæði Norðurlandamóti og Evrópumóti.

Það var alltaf markmið hjá mér, um leið og lyftingarnar náðu tökum á mér, að komast á heimsmeistaramót þannig að þar náði ég strax einu markmiðinu,“ segir hann.

Fyrir hvert mót er birt spá um hvernig keppendur muni raðast. Íslenska nýliðanum var spáð neðsta sætinu. Hann náði best tólfta sæti, bætti sig í þremur greinum af fjórum og setti Íslandsmet í unglingaflokki í bekkpressu þegar hann lyfti 167,5 kg. „Ég fylltist bara af meira adrenalíni til að sýna og sanna að ég væri betri en að verma botnsætin.“

Ferð hans á mótið var þó ekki þrautalaus, hann meiddist í baki tveimur mánuðum fyrir mótið og aftur þremur vikum fyrir það. Hann harkaði þó af sér í gegnum keppnina og stefnir áfram í greininni.

„Næsta markmið mitt er að ná á verðlaunapall á næsta heimsmeistaramóti. Nú er ég töluvert nær um það hvernig þetta gengur fyrir sig og verð því væntanlega ekki alveg jafn stressaður í framtíðinni. Það var töluvert um stress í manni þarna sem maður þarf að læra að hafa stjórn á og að því leytinu til er þetta ekkert frábrugðið stórmótum í öðrum íþróttagreinum.“

Alvar Logi er uppalinn á Egilsstöðum, faðir hans kemur frá Selfossi en móðir hans af Jökuldal. Hann hefur það eftir henni að krafturinn sé allur kominn af Jökuldalnum. Alvar er annars í lögreglunámi og hefur samhliða því unnið hjá lögreglunni á Austurlandi. Hann segir starfið spennandi því alltaf sé eitthvað nýtt að upplifa og læra. Þá sé góður starfsandi í hópnum eystra.

Mynd: Alþjóðlega kraftlyftingasambandið

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.