Píla: Kolev í úrslit á sterku alþjóðlegu móti

Vopnfirðingurinn Dylian Kolev komst um helgina í úrslit á alþjóðlegu móti í pílukasti sem haldið var í Færeyjum. Hann var nýverið valinn inn í íslenska landsliðið sem keppir á Norðurlandamótinu í maí. Árangur Kolev vekur síst athygli þar sem tiltölulega er skammt síðan hann byrjaði að stunda íþróttina.

Kolev var um helgina hluti af rúmlega manna hópi frá Íslandi sem tók þátt í tveimur mótum, Torshavn Open og Faroese Open. Gamanið byrjaði reyndar með keppni í tvímenningi á föstudagskvöldi. Þar komst Kolev í úrslit ásamt félaga sínum Árna Ágústi.

Í Torshavn Open á laugardag komst Kolev í undanúrslit en í úrslit á Faroese Open í gær þar sem hann tapaði naumlega fyrir sænskum mótherja sem var með flest stig af þeim keppendum sem voru skráðir til leiks fyrir helgina.

Mótið var sterkt enda telur það til stiga innan Alþjóðlega pílukastssambandsins. Keppendur komu meðal annars frá Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi. Einn þeirra sem Kolev sló út á leið sinni í úrslitin í gær er Matt Edgar, sem er þekktur í píluheiminum fyrir YouTube-rás sína og hlaðvörpu. Hann komst í 64 manna úrslit á heimsmeistaramótinu árið 2021.

Byrjaði fyrir þremur árum


Um svipað leyti var Kolev, sem árum saman spilaði knattspyrnu með Einherja, að byrja að kasta pílunni. „Ég hafði ekkert annað að gera í Covid-faraldrinum. Í fyrra fór ég að einbeita mér meira að pílunni og það er farið að borga sig, því framfarir mínar hafa verið hraðari heldur en nokkur, þar með talið ég, átti von á.

Það þekktu mig fáir þarna fyrir helgina en það breyttist eftir laugardaginn. Það kom fólki mjög á óvart að heyra að ég hefði byrjað að kasta pílu fyrir þremur árum,“ segir Kolev.

Valinn í landsliðið


Í byrjun mánaðarins vann hann stórt opið mót á Akureyri og var í kjölfarið valinn í íslenska landsliðið sem keppir á Norðurlandamótinu í lok maí. „Það er mikill heiður. Þjálfarinn bauð mér til æfinga með úrvalshópi í desember og það varð mér mikil hvatning,“ segir Kolev.

Ástríða Kolevs fyrir pílunni er farinn að breiða út frá sér á Vopnafirði. Með honum á Akureyri var Jón Ragnar Helgason sem komst í átta manna úrslit. „Það er frábær árangur hjá honum því hann hefur aðeins æft í hálft ár.

Við erum að reyna að auka veg pílunnar á Vopnafirði og ég vona að árangur minn hjálpi til. Við viljum sérstaklega koma upp æfingum fyrir börn og unglinga þannig það verði fleira fyrir þau að gera á staðnum.“

Opna íslenska meistaramótið um miðjan apríl er næst á dagskrá hjá Kolev. Að það sé opið þýðir að keppendur frá fleiri löndum geta keppt og unnið til verðlauna. Keppendur geta þar náð sér í styrkleikastig á vegum heimssambandsins. „Þar verða meðal annars sterkir íslenskir spilarar sem ekki voru til Færeyjum. Ég hlakka til að mæta þeim. Ég er á leiðinni heim og byrja á morgun að æfa fyrir það.“

Kolev og Árni Ágúst með silfurverðlaun sín frá helginni. Mynd: Havnar Dartfélag

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.