Ár frá því snjóflóð féllu í byggð í Neskaupstað

Það var snemma morguns fyrir sléttu ári síðan, þann 27. mars 2023, sem snjóflóð féllu í byggð í Neskaupstað með þeim afleiðingum að töluverðar skemmdir urðu á mannvirkjum, bílum og búnaði ýmsum. Þótti mildi hin mesta að engin alvarleg slys urðu á fólki þó um tugur manna hafi leitað sér læknisaðstoðar vegna minniháttar meiðsla.

Jón Björn Hákonarson, sitjandi forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, man þennan dag mætavel enda greyptur í hans huga sem og líklega annarra sem í bænum voru þennan morguninn. Velflestir þeirra í fastasvefni enda hafði ekki verið gefin út sérstök viðvörun um alvarlega snjóflóðahættu af hálfu Veðurstofu Íslands.

Stærsta happið að enginn týndi lífi eða slasaðist alvarlega

Jón Björn segir þessa lífsreynslu hafa verið lærdómsríka fyrir alla sem að komu.

„Ég var vakinn þegar bæjarverkstjórinn hefur samband við mig um upp úr klukkan sex og segir mér að snjóruðningsmaður sem var að koma ofan úr sveit hafi tilkynnt um að hann hafi keyrt fram á snjóflóð við gamla farveginn fyrir innan minningarreitinn þar sem flóðin féllu árið 1974. Það var strax haft samband við Kristján Ólaf Guðnason, honum tilkynnt um flóðið og hann beðinn um að kalla saman almannvarnarnefnd. Það er svo skömmu síðar sem við fregnum að það hafi einnig fallið flóð úr Nesgili á íbúðarhús þar fyrir neðan. Á þeim tíma var búið að ræsa viðbragðsaðila og björgunarsveitir teknar til starfa og sjálfur hélt ég svo niður í björgunarsveitarhús til að taka stöðuna þar og aðstoða eins og hægt var.“

Jón Björn telur alveg með ólíkindum að enginn skyldi týna lífi né alvarleg slys hafi orðið á fólki við þessar kringumstæður þó hann sé vel meðvitaður um að flóðin hafi sannarlega verið öllum mikið andlegt áfall og ýft upp slæmar minningar frá flóðunum 1974.

„Auðvitað ýfði þetta upp gömul sár hjá fólkinu sem upplifði flóðin þá eða á tengingar í þann harmleik gegnum ættingja og vini. Auðvitað hefur tekið tíma fyrir fólk að vinna úr þessu andlega og margir enn að því. En það var líka mjög magnað að vitna hversu samfélagið allt vann saman í kjölfarið. Allir tóku á þessu saman auk þess sem gleðilegt var að sjá og finna mikinn stuðning annars staðar af landinu. Þetta jók líka almennt traust að mínu mati á almannavarnarkerfinu sjálfu að mínu mati.“

Síðustu varnargarðarnir mikilvæg tímamót

Aðeins er tæpar tvær vikur síðan Ríkiskaup, fyrir hönd Fjarðabyggðar, auglýsti útboð á þeim hluta snjóflóðavarna í Neskaupstað sem eftir er að reisa en sá garður verður fyrir ofan Nes- og Bakkgil. Garðurinn verður þar rúmlega 700 metra langur en verkinu skal alfarið lokið eigi síðar en haustið 2029.

„Það er afskaplega gleðilegt að þetta sé komið áleiðis enda hér um að ræða síðasta hluta þeirra varnarvirkja sem þarf til að verja bæinn. Afar jákvætt að við höfum fengið mikinn og góðan stuðning til þessa meðal annars frá ríkinu þannig að verkið vinnst hraðar en annars.“

Að þeim framkvæmdum loknum er þá einungis eftir að reisa einn varnargarð til á Eskifirði að sögn Jóns og þar með verður lokið við að reisa alla nauðsynlega varnargarða í sveitarfélaginu.

Samanburðarmyndaröð

Ritstjóri Austurfréttar, Gunnar Gunnarsson, hélt til Neskaupstaðar síðasta haust þegar sex mánuðir höfðu þá liðið frá flóðunum. Í kjölfarið setti hann saman myndasyrpu þar sem sjá má sömu staðina í bænum í kjölfar flóðanna og ástandið 180 dögum síðar. Þá myndasyrpu má sjá hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.